Ferðaþjónustufyrirtækin Ísafold og Ísak hafa verið sameinuð um leið og eigendahópurinn var stækkaður. Eftir sameiningu fyrirtækjanna mun Sigfús Bjarni Sigfússon, fyrrum eigandi Ísak stjórna bílaleigunni áfram og kemur jafnframt inn sem nýr hluthafi í Ísafold.  Að auki koma Ásgeir Eiríksson og Thomas Möller inn í hlutafélagið sem nýir hluthafar  við hlið hjónanna Auðbjargar Bergsveinsdóttur og Jóns Baldurs Þorbjörnssonar sem stofnuðu Ísafold.

Ferðaþjónustufyrirtækið Ísafold Travel  var stofnað fyrir um 13 árum og hefur vaxið stöðugt síðan. Fyrirtækið sérhæfir sig í skipulagningu og framkvæmd ferða um landið með litla hópa í fylgd sérhæfðra leiðsögumanna. Ísak 4x4Rental var stofnað fyrir um 3 árum og hefur sérhæft sig í leigu á fjórhjóladrifunum, breyttum Land Rover Defender bílum

Ásgeir Eiríksson er nú  framkvæmdastjóri  Ísafoldar, Jón Baldur Þorbjörnsson mun sinna leiðsögn í ferðum fyrirtækisins og kynningarmálum þess. Thomas Möller er stjórnarformaður Ísafoldar.

Í tilkynningu kemur fram að þessar breytingar hafa það að markmiði að efla bæði fyrirtækin og gera þeim kleift að veita viðskiptavinum sínum enn betri þjónustu en áður, jafnt ferðamönnum sem ferðaþjónustufyrirtækjum.