Eftirlitsaðilar á vegum Evrópusambandsins hefðu átt að gefa mikilli skuldasöfnun Grikkja gaum frá árinu 2004 og grípa í taumana áður en það var orðið of seint. Þetta segir Pavlos Yeroulanos, ferðamálaráðherra Grikkja. Hann er harðorður í garð Evrópusambandsins sem hefur um langt skeið unnið að því hörðum höndum að leysa úr skuldavanda Grikkja. Skuldadagar stjórnvalda renna upp í mánuðinum.

Breska útvarpið, BBC, hefur eftir ferðamálaráðherranum að grískur almenningur, sem hafi þurft að taka á sig miklar byrðar í formi niðurskurðar og skattahækkana, hafi ekki með nokkru móti getað áttað sig á stöðu þjóðarbúsins fyrr en fyrir tveimur árum þegar viðræður hófust um lausn skuldakreppu landsins.

Yerolanos segir Evrópusambandið annað hvort ekki staðið vaktina eða reynt að loka augunum fyrir aðsteðjandi vandanum.

„Ef við viljum sjá sterkt Evrópusamband þá verður það að hafa getu til þess að fylgjast með þróun efnahagsmála og gefa hættumerkjunum gaum,“ segir hann.