Sportbílaframleiðandinn Ferrari sem stígur nú sín fyrstu skref sem sjálfstætt fyrirtæki á hlutabréfamarkaði hefur aukið við sölu sína og hagnað á fyrsta ársfjórðungi 2016. Fréttaveita Bloomberg segir frá þessu.

Sala sportbílaframleiðandans jókst um 15% milli tímabila. Í Evrópu nam söluaukningin rúmum 24% og 16% í Kína. Söluaukningunni er helst tveimur nýjum bílum, þeim 488 GTB og 488 Spider, að þakka að sögn fyrirtækisins.

EBITDA fyrirtækisins nam þá 112 milljörðum króna, en spár gerðu ráð fyrir að hún yrði 107 milljarðar króna. Hagnaður félagsins eftir skatta og aðrar afskriftir nam þá 24 milljörðum króna á ársfjórðungnum.