Ítalski bílaframleiðandinn Fiat hefur kynnt afkomutölur fyrir annan ársfjórðung 2009 sem sýnir nettó tap upp á 168 milljónir evra. Ástæðan er m.a. samdráttur á milli ára í sölu og þá einkum á trukkum og atvinnutækjum samkvæmt frétt The Detroit News.   Eru þetta mikil umskipti milli ára þar sem nettó hagnaður á öðrum ársfjórðungi í fyrra var 604 milljónir evra. Eigi að síður er 168 milljóna evra tap nú mun betri árangur en á fyrsta ársfjórðungi þegar tapið nam 578 milljónum evra.   Talsmenn Fiat, sem tók yfir ráðandi hlut í bandaríska bílaframleiðandanum Chrysler í síðasta mánuði, segja að betri stöðu nú en í byrjun árs megi rekja til aðgerða sumra Evrópuþjóða um að hvetja fólk með styrkjum til að skipta út sínum gömlu bílum fyrir nýja.   Fíat sem er með höfuðstöðvar í Torino og framleiðir Fiat, Lancia og Alfa Romeo segir veltu á síðasta ársfjórðungi hafa dregist saman um 22,5%. Hún hafi verið 13,2 milljarðar evra á móti 17 milljörðum evra á sama tíma í fyrra.