„Fidel er Fidel,“ sagði Raúl Castro um bróður sinn í gær eftir að Raúl hafði tekið við stjórnartaumunum á Kúbu eftir tæplega hálfrar aldar stjórn Fidels Castro. „Ekkert kemur í stað Fidel og fólkið mun halda áfram starfi hans. Jafnvel eftir að hann verður farinn verða hugmyndir hans alltaf í fullu gildi,“ hefur WSJ eftir Raúl. WSJ segir að við stjórnarskiptin í gær hafi flestar pólitískar vísbendingar verið í þá átt að engar breytingar yrðu á stjórn landsins.

Eftir að Raúl Castro tók við embætti forseta í gær óskaði hann eftir heimild þingsins til að hafa bróður sinn með í ráðum og sú beiðni var samþykkt samhljóða. Raúl Castro barðist við hlið bróður síns í byltingunni á Kúbu fyrir hálfri öld. Sama er að segja um José Ramón Machado, hugmyndafræðing Kommúnistaflokksins, sem í gær var valinn maður númer tvö á Kúbu.