Hinn danski FIH banki tapaði alls 1.007 milljónum danskra króna í fyrra, andvirði um 23 milljarða íslenskra króna. Afskriftir settu sinn svip á afkomu bankans, því alls afskrifaði hann 1.337 milljónir á útlánum og öðrum eignum.

Forstjórar bankans, Bjarne Graven Larsen og Henrik Sjøgren segjast eðlilega ekki vera sáttir við niðurstöðuna. Afskriftir hafi verið meiri en búist hafði verið við, en framtíðin sé hins vegar ágætlega björt. Benda þeir á að afkoma bankans fyrir afskriftir var jákvæð og gera þeir ráð fyrir því að afskriftir verði verði umtalsvert minni á þessu ári og að hann muni skila hagnaði í ár.

Seðlabankinn átti 99,89% hlut í danska bankanum og seldi hann í september 2010. Söluandvirðið var sagt vera fimm milljarðar danskra króna og þar af voru 1,9 milljarðar staðgreiddir. Nýir eigendur fengu svo seljendalán frá Seðlabankanum sem á að greiðast í árslok 2014.

Seðlabankinn sagði við söluna að seljendalánið yrði „leiðrétt með tilliti til þess taps sem FIH verður fyrir vegna eigna á efnahagsreikningnum þann 30. júní 2010 þar til 31. desember 2014 auk þess sem mögulegur hagnaður FIH af Axcel III sjóði kemur til hækkunar“. FIH hefur tapað töluverðu frá frá árinu 2010 og hefur virði seljendalánið því lækkað töluvert, en ef viðsnúningur verður á rekstrinum í ár ætti sú lækkun að ganga að einhverju leyti til baka.