Í ljósi þess álags sem verið hefur á björgunarsveitir undanfarna daga og vikur ætlar Olís að láta fimm krónur af hverjum keyptum bensínlítra hjá Olís og ÓB í dag renna til Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Kemur þetta fram í tilkynningu.

Þar er haft eftir Jóni Ólafi Halldórssyni, forstjóra Olís, að á undanförnum vikum og mánuðum hafi mikið mætt á sjálfboðaliðum Slysavarnafélagsins Landsbjargar vegna aftakaveðurs sem og hefðbundinna björgunarstarfa á hálendinu. Björgunarfólk vinni ómetanlegt starf og sé alltaf til staðar í hvaða veðrum og aðstæðum sem er og komi öðrum til bjargar á ögurstundu.

Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, segir í tilkynningunni að öflugur stuðningur fyrirtækja og almennings skipti sköpum varðandi leit og björgun á Íslandi. Olís hafi styrkt samtökin með fjárframlögum og veglegum afslætti af eldsneyti og öðrum vörum. Fyrirtækið hafi einnig boðið upp á sérstaka neyðaraðstoð og sé tilbúið að opna afgreiðslustöðvar sínar að kvöld- og næturlagi ef björgunaraðgerðir eru í gangi til að björgunarsveitir hafi aðgang að eldsneyti og öðrum búnaði.