ÁTVR áætlar að sala á bjór muni aukast umtalsvert í júní á þessu ári og tengja stjórnendur fyrirtækisins það beint við EM í knattspyrnu. Ágúst Hafberg, framkvæmdastjóri tæknisviðs ÁTVR, segir það alþekkt að bjórsala aukist þegar viðburðir á borð við EM standi yfir. Búist sé við að salan aukist verulega, en erfitt sé að fullyrða hversu mikið. Í júní í fyrra nam heildarsalan á bjór á Íslandi 1.314.644 lítrum og er þá miðað við sölu í verslunum ÁTVR og á veitingastöðum.

Í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að það sem af er ári hefur sala á bjór aukist um 3-4% og ef bjórsvelgir þessa lands standa sig vel á meðan EM stendur yfir, stefnir neyslan hraðbyri í eina og hálfa milljón lítra í júní - sem er dágott. Verði það raunin jafngildir þetta því að hvert mannsbarn á Íslandi drekki um fimm lítra af bjór í júní. Þar sem íslensk börn eru léleg við drykkjuna og einn af hverjum fjórum Íslendingum er bindindismaður samkvæmt nýrri skoðanakönnun, er ljóst að íslenskir bjórsvelgir drekka mun meira en fimm lítra hver í júní. Erlendum ferðamönnum hefur þó farið fjölgandi hér á landi undanfarið og þeir drekka sitt, þannig að það er ekki hægt að skrifa alla neysluna á mörlandann. Ágúst Hafberg segir að nú standi yfir aðalsölutímabilið á bjór en salan sé þó háð fjölda óvissuþátta. Hann bendir til að mynda á að bjór seljist mun betur ef sólin skín á fimmtudögum og föstudögum heldur en þegar það er skýjað!