Skuldastaða sveitarfélaga hefur versnað umtalsvert frá hruni, einkum vegna áhrifa af falli krónunnar á gengisbundin lána þeirra. Skuldirnar duttu þó ekki af himnum ofan.

Miklar framkvæmdir á vegum sveitarfélaga og dótturfélaga þeirra, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, hafa leitt til mikilla skulda. Í flestum tilfellum er eigið fé sveitarfélaga þó jákvætt þegar allt er talið, þ.e. að eignir eru umfram skuldir.

Í venjulegu árferði á sú staða, að sveitarfélag sé með neikvætt eigið fé, að vera nánast óhugsandi þar sem skatttekjur þeirra og grunneignir í efnahagsreikningi eru það stöðugar. Miklar framkvæmdir dótturfélaga sveitarfélaga, s.s. hafnarsjóða og orkufyrirtækja, hafa verið fjármagnaðar að nær öllu leyti með lánsfé.

Fjarðabyggð er gott dæmi um þetta, en þrátt fyrir trausta tekjustofna, m.a. vegna áhrifa frá álveri Alcoa á Reyðarfirði, er eigið fé sveitarfélagsins neikvætt um 192 milljónir og skuldir yfir tvær milljónir á hvern íbúa. Það skal þó tekið fram að styrking krónunnar getur haft mikil og jákvæð áhrif á efnahag sveitarfélaga.

Fimm sveitarfélög eru með neikvætt eigið fé að  teknu tilliti til A- og B-hluta efnahagsreiknings, samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2010. Það eru Grundarfjarðarbær, Fjarðabyggð, Seyðisfjarðarkaupstaður, Norðurþing og Álftanes.

Reykjanesbær er það sveitarfélag sem er mestu skuldir utan efnahagsreiknings, samtals tólf milljarða. Það kemur til viðbótar þeim upplýsingum sem fram koma í meðfylgjandi töflu, en þær byggja á gögnum sem sveitarfélögin sjálf hafa sent til Sambands íslenskra sveitarfélaga.