*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 21. september 2019 18:03

Fimmtán stjórnendur ríkisins hækka

Ákvarðanir um launabreytingar voru áður í höndum kjararáðs en færðust um áramótin til fjármálaráðherra.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Johannessen hækkaði úr 1.600 þúsund í 1.750 þúsund krónur.
Vilhelm Gunnarsson

Laun fimmtán stjórnenda ríkisstofnana hækkuðu nýverið. Ákvarðanir um launabreytingar voru áður í höndum kjararáðs en færðust um áramótin til skrifstofu kjara- og mannauðsmála innan fjármálaráðuneytisins.

Nýtt launakerfi tók gildi um áramótin en það hafði í för með sér að tveir þriðju ríkisforstjóra hækkuðu í launum, hjá sumum meira en tíu prósent. Meðal annars hækkaði veðurstofustjóri um 28,6% og ríkisskattstjóri fékk 16,2% hækkun ofan á 26,5% hækkunina á síðasta ári.

Eftir að sú röðun í launaflokka lá fyrir gafst stjórnendum og ráðuneytum kostur á að koma á framfæri athugasemdum við listann. Þau andmæli skiluðu sem fyrr segir breytingum í fimmtán tilfellum þar sem stjórnendur voru færðir upp um einn launaflokk. Nam hækkunin á bilinu sjö til níu prósentum.

Mesta hækkun fékk Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri, en laun hans hækkuðu um 9,38% og verður jafnsettur lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu í launum með 1.750 þúsund krónur á mánuði. Áður hafði hann verið launaflokk neðar. Meðal annarra sem hækkuðu má nefna forstjóra Menntamálastofnunar og Persónuverndar og hluta sýslumanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér