Fimmta endurskoðun AGS á að ljúka í lok mars eða í byrjun apríl. Þetta kom fram á blaðamannafundi Julie Kozack, yfirmanns sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á Íslandi, sem haldinn var í húsakynnum Seðlabanka Íslands dag. Tilefni fundarins var að sendinefnd frá AGS undir stjórn Kozack hefur dvalið hérlendis síðustu tvær vikur vegna viðræðna um að ljúka fimmtu endurskoðuninni. Viðræður munu halda áfram á næstu vikum.

Á meðan á fundarhöldunum stóð hitti sendinefndin meðal annars háttsetta embættismenn, þingmenn, fræðimenn, fulltrúa atvinnulífsins og launþegahreyfingarinnar.

Endurskoðanirnar verða alls sjö en efnahagsáætlun AGS og Íslands á að ljúka í lok ágúst næstkomandi.

Mikið atvinnuleysi vandamál

Kozack sagði að efnahagur Íslands væri að jafna sig og að AGS vænti þess að hagvöxtur yrði á árinu 2011, í fyrsta sinn frá því að bankahrunið átti sér stað. Hún sagði sjóðinn reikna með því að verðbólga yrði nálægt spám Seðlabanka Íslands og að opinberar skuldir myndu dragast saman. Lykilatriði væri að taka á miklu atvinnuleysi.

Kozack sagði einnig að stjórnvöld væru enn í því ferli að þróa áætlun til að lyfta gjaldeyrishöftunum sem hafa verið til staðar frá haustmánuðum 2008.

Frekara samstarf ekki útilokað

Í máli Kozack kom fram að ýmsir möguleikar væru á áframhaldandi samstarfi milli sjóðsins og Íslands eftir að áætluninni lyki. Hún tilgreindi þó ekki efnislega hvers eðlis þeir möguleikar væru.