Finnska flugfélagið Finnair, sem er að meirihluta í eigu finnska ríkisins, hefur tekið upp á þeirri nýbreytni að vigta farþega sína.

Segir flugfélagið vigtunina vera gerða í öryggisskyni, enda miða flugfélög í dag við tölur um meðalþyngd farþega frá árinu 2009, sem gera ráð fyrir að karlkynsfarþegar vegi að meðaltali 88 kílógröm, en kvenkynsfarþegar 70 kílógrömm. Finnair hefur áhuga á að safna eigin gögnum, að því er talsmaður fyrirtækisins segir að því er fram kemur á Inc.com .

„Öryggismenning okkar hjá Finnair sem og við erum knúin áfram af upplýsingum, sem gerir það að verkum að við viljum hafa sem bestu mögulegu upplýsingar til að reikna út burðargetu flugvéla okkar og afköst,“ segir talsmaðurinn, og vísar meðal annars í misþungan handfarangur farþega.

„Til dæmis hafa farþegar í viðskiptaerindum oft aðra þyngd á sínum handfarangri heldur en ferðamenn, sem og það er mismikil þyngd á karl- og kvenkynsferðalöngum.“ Býst flugfélagið við að viga um 2.000 farþega, sem allir myndu gera það að fúsum og frjálsum vilja.

„Það var frábært að sjá hve margir voru tilbúnir að taka þátt í þessari rannsókn,“ segir talsmaðurinn sem segir einungis starfsmanninn sem sjái um mælinguna geta séð niðurstöðuna. Flugfélagið Hawaiian Airlines gerði svipaðar mælingar á einni flugleið milli Honolulu og Bandarísku Samóaeyja, sem endaði með málsókn.