Hætt er við kreppu í Finnlandi á næsta ári ef erfiðleikar á evrusvæðinu og samdráttur á heimsmarkaði halda áfram. Þetta er haft eftir fjármálaráðherra Finna á vef fréttaveitunnar Reuters.

Ráðherrann Jutta Urpilainen sagði að hagvöxtur ætti við eðlilegar aðstæður að vera um núll til eitt prósent á næsta ári. Hins vegar mætti allt eins búast við samdrætti og færi niðurstaðan eftir þróuninni á heimsvísu. Hún sagðist heldur búast við erfiðu tímabili í Evrópu.

Finnar eru nú meðal fárra Evrópuþjóða með lánshæfismatið AAA frá þremur af helstu lánshæfismatsfyrirtækjunum. Miðað við þjóðhagstölur losnuðu Finnar við kreppuna á öðrum ársfjórðungi 2010 og óttast nú að falla til baka.