Fjármálaeftirlit Finnlands vill fá nánari upplýsingar um eignarhlut FL Group í Finnair, en félagið segist eiga 22,4% hlut í flugfélaginu. Þetta kemur fram í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Finnair heldur því fram að FL Group hafi ekki látið félagið vita af stærð hlutarins og segir að finnska fjármálaeftirlitið vilji fá nánari upplýsingar um samsetningu eignarinnar, en hluti hennar er í framvirkum samningum.

"Þeir (FL Group) eiga ekki sjálfir 22,4%, en hluti er í framvirkum samningum og þeir hafa atkvæðaréttinn. Löglegir eigendur eru einhverjir aðrir, að mestu bankar," segir forstöðumaður fjárfestatengsla Finnair, Taneli Hassinen.

FL Group hefur óskað eftir sæti í stjórn Finnair, en íslenska félagið telur sig vera næststærsta hlutahafann í félaginu á eftir finnska ríkinu, sem er á 56% hlut.

Hins vegar vilja stjórnendur og hluthafar, sem fara samtals með rúmlega 60% hlut í félaginu, endurkjósa núverandi stjórn. Í samtali við Viðskiptablaðið í vikunni sagði Hannes Smárason, forstjóri FL Group, að félagið myndi ótrautt bjóða sinn mann fram í stjórnina.

Hannes sagði einnig að mögulegt væri að selja hlutinn í Finnair og að nokkrir aðilar hafi áhuga á að kaupa hann, þar á meðal skandinavíska flugfélagið SAS.