„Mér finnst þetta vera fríið. Á Kanarí getur maður notið þess að hvíla sig um jólin. Ef ég væri heima þá værum við alltaf í boðum og að elda, sem er reyndar ágætt. En það er ekki sama hvíldin,“ segir Kristín Eiríksdóttir, leikskólastjóri í Árbæ á Selfossi. Hún hefur tvívegis farið með fjölskyldu sinni til Kanaríeyja yfir jól og áramót. Það gerði hún í fyrsta sinn árið 2002. Börnin voru þá 17 og 11 ára.

„Í bæði skiptin fórum við daginn fyrir Þorláksmessu og komum daginn eftir þrettándann. Ferðalagið tók nefnilega allan daginn. En síðan gátum við notið þess að ganga um ströndina, legið þar og slakað á í 25 stiga hita,“ segir Kristín og viðurkennir að hún sé ekki að flýja jólastressið hér heldur hlaða batteríin. „Það er hávetur hjá okkur hér og dimmt. En þarna úti er hiti, strönd og pálmatré. Bara þetta gerir það að verkum að maður kúplar sig út úr daglegu mynstri og verður léttari í lund á eftir,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Jólagjafahandbókinni sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .