Finnur Dellsén hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri-grænna.

Finnur er 23 ára og heimspekingur að mennt, útskrifaðist með BA-próf í heimspeki frá Háskóla Íslands í fyrra eftir að hafa lokið stúdentsprófi af eðlisfræðibraut Menntaskólans á Akureyri árið 2004. Hann vann áður við fræðslu hjá Orkuveitu Reykjavíkur, og er nú að ljúka störfum sem kennari við Menntaskólann í Reykjavík.

„Finnur hefur tekið þátt í pólitísku starfi um árabil, í ungliðahreyfingu Vinstri-grænna ekki síður en í almennu flokksstarfi, og auk þess starfað mikið með Röskvu, samtökum félagshyggjufólks við Háskóla Íslands.

Þá hefur hann skrifað fjölmargar greinar í blöð og á vefrit, sér í lagi á vefritið Múrinn. Fyrir síðustu þingkosningar var Finnur einn af þremur kosningastjórum Vinstri-grænna á höfuðborgarsvæðinu og hefur starfað fyrir þingflokk VG frá áramótum. Í starfi sínu mun Finnur huga sérstaklega að upplýsingamálum, samskiptum við almenning og að styrkja tengslin við ungliðahreyfingu flokksins. Að öðru leyti starfar hann samkvæmt stöðluðum ráðningarsamningi aðstoðarmanna formanna stjórnarandstöðuflokkanna,“ segir í tilkynningu frá VG.

Finnur er búsettur í Reykjavík en ólst upp á Akureyri og í Svíþjóð.