„90% af öllum gögnum heimsins í dag hafa orðið til á síðustu 2 árum,“ segir Finnur Oddsson forstjóri Nýherja. Hann var með erindi um málið á Kauphallardegi Arion banka, sem fram fór í gær. Finnur benti m.a. á að upplýsingatækni sé orðin að undirstöðuþætti í öllum rekstri með allt öðrum hætti en áður var. „Hún skiptir ekki einungis máli fyrir stjórnendur tæknimála, heldur alla stjórnendur; frá markaðsstjórum til mannauðsstjóra,“ segir hann.

Finnur sagði í erindi sínu að það þyrfti ekki að fara mörgum orðum um hvers konar bylting hefði átt sér stað með tilkomu snjallasíma og snjalltækja ýmskonar.  Í dag séu yfir sjö milljarðar farsímaáskrifta hjá símafyritækjum heimsins og þeim hafi fjölgað um ríflega 1 milljarð á ári undanfarin þrjú ár. „Símar hafa yfirtekið líf okkar; við skiljum þá aldrei við okkur.“

Þá sagði Finnur að af þeim sökum standi fyrirtæki frami fyrir ögrunum sem snúa að gagnamagni. „Aldrei áður höfum við haft aðgang að jafn miklu magni gagna og nú.  Það sem er áhugavert, er að 90% af öllum gögnum sem til eru í dag voru ekki til fyrir 2 árum. Þá eru 80% þessara gagna ómótuð; einungis til á myndum, í tölvupósti, bloggum og færslum á samfélagsmiðlum. Og við þurfum snjallari upplýsingatæknilausnir til að aðstoða okkur við úrvinnsluna.“

Hann sagði að ennfremur að áhrif annarra stjórnenda en tæknistjóra á fjárfestingar í upplýsingatækni væru að aukast. „Því er til dæmis spáð að innan 2 ára fari markaðsstjórar með stærri hluta þess fjármagagns sem fer í upplýsingatækni í stað tæknistjóra.“