Hagnaður HB Granda á þriðja ársfjórðungi nam rétt tæpum 20 milljónum evra og var því ríflega tvöfalt meiri en á sama tímabili í fyrra, þegar hagnaðurinn nam 9,7 milljónum evra. Umskiptin urðu nær alfarið á tekjuhliðinni, því veltan jókst um 17,6 milljónir evra á milli ára og vergur hagnaður um rúmar 13 milljónir. Í kjölfar uppgjörsins hækkaði gengi bréfa félagsins um 5,9%.

„Uppgjörið var firnasterkt, en það er ekki auðvelt að spá fyrir um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja,“ segir Kristján Markús Bragason hjá Greiningu Íslandsbanka.

Kristján segir að hins vegar vofi óvissa yfir félaginu vegna lagaumgjörðar fiskveiðistjórnunar. „Það er mjög skaðlegt að vita ekki frá ári til árs hversu há veiðigjöldin verða og sama á við um veiðiheimildirnar, þ.e. hvort farin verði fyrningarleiðin svokallaða eða hver niðurstaða í fiskveiðistjórnunarmálum verður. Fjárhæðir veiðigjaldanna skipta máli en öllu verri er sú óvissa sem felst í miklu hringli með framtíðarskipulagi fiskveiðistjórnunar. Það er óvissa í öllum rekstri og því ekki þörf á að bæta heimatilbúinni óvissu ofan á hana.“

Nánar er fjallað um uppgjörið í kauphallarblaði, sem fylgdi Viðskiptablaðinu í vikunni. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .