Fiskaflinn á árinu sem var að líða var sá minnsti frá árinu 1991, árið 2006 er fiskaflinn áætlaður 1.324 en árið 1991 var hann 1.044 þúsund tonn, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Aflinn á nýliðnu ári (2006) dróst saman um 21% frá árinu 2005. Helstu skýringar á samdrætti í afla milli ára eru minni loðnu- og þorskafli. Mest munar um samdrátt í loðnuaflanum en vertíðin í upphafi síðasta árs var mjög endaslepp. Þorskaflinn var um 13 þúsund tonnum minni á nýliðnu ári miðað við árið 2005, að mestu vegna kvótasamdráttar,? segir greiningardeildin.

Hún segir að þrátt fyrir 21% aflasamdrátt í tonnum talið stefnir í að útflutningsverðmæti sjávarafurða muni aukast um 12-14% milli ára.

?Það skýrist af nokkrum þáttum, til að mynda af því að hátt hlutfall af loðnuafla á vertíðinni í fyrra fór til manneldisvinnslu. Þá veiktist krónan umtalsvert þegar líða tók á árið sem kom sjávarútveginum vel.

Loks hefur afurðaverð hækkað hraustlega á árinu (um 13%). Nýliðið ár var því gott fyrir sjávarútveginn þrátt fyrir lítinn afla,? segir greiningardeildin.

Að hennar sögn eru ytri aðstæður eru nú hagstæðar fyrir sjávarútveginn, afurðaverð er hátt og gengið þokkalega hagstætt fyrir fyrirtæki í greininni.

?Fyrir liggur kvótaúthlutun fyrir fiskveiðiárið sem endar í lok ágúst. Ein mesta óvissan um afkomu greinarinnar á nýbyrjuðu ári er hvernig loðnuveiðin gengur. Kvóti hefur ekki verið gefinn út en loðnuleit mun hefjast nú í upphafi árs. Eftir miklu er að slægjast þar sem mjölverð er í sögulegu hámarki,? segir greiningardeildin.