Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum janúarmánuði, metinn á föstu verði, var 13,9% meiri en í janúar 2010. Aflinn nam alls 119.345 tonnum í janúar 2011 samanborið við 55.523 tonn í janúar 2010.

Hagstofan birtir í dag gögn um fiskafla í janúar 2011.

Botnfiskafli dróst saman um rúm 6.100 tonn frá janúar 2010 og nam rúmum 25.300 tonnum. Þar af var þorskaflinn tæp 13.400 tonn, sem er samdráttur um 4.100 tonn frá fyrra ári. Ýsuaflinn nam tæpum 3.800 tonnum sem er um 1.700 tonnum minni afli en í janúar 2010. Karfaaflinn jókst um 380 tonn samanborið við janúar 2010 og nam tæpum 2.800 tonnum. Um 2.200 tonn veiddust af ufsa sem er um 600 tonnum minni afli en í janúar 2010.

Afli uppsjávartegunda nam tæpum 93.000 tonnum, sem er tæplega 70.600 tonnum meiri afli en í janúar 2010. Aukningu í uppsjávarafla má rekja til tæplega 82.500 tonna loðnuafla í janúar en loðnuvertíðin var ekki hafin í janúar 2010. Síldarafli nam tæplega 3.900 tonnum og dróst saman um 2.500 tonn frá fyrra ári. Afli gulldeplu nam 6.500 tonnum sem er samdráttur um tæp 4.100 tonn miðað við janúar 2010.

Flatfiskaflinn var rúm 900 tonn í janúar 2011 og dróst saman um tæp 500 tonn frá fyrra ári. Skel- og krabbadýraafli nam 211 tonnum samanborið við um 342 tonna afla í janúar 2010.

Frétt Hagstofunnar .