Hagnaður af rekstri Fiskmarkaðs Íslands var 51,2 milljónir króna árið 2005, samanborið við 55,5 milljónir króna árið áður, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Í tilkynningunni segir að félagið muni ekki uppfylla skilyrði Kauphallar Íslands og áæltað er að afskrá félagið fyrir árslok.

Velta félagsins var 436,5 milljónir króna árið 2005 en 444,5 milljónir króna árið 2004.

Eigið fé félagsins árið 2005 var 329 milljónir en 292 milljónir árið 2004. Eiginfjárhlutfallið er 61% árið 2005 en 62,70% árið áður.

Félagið starfrækir uppboðsmarkað fyrir fisk í Ólafsvík, Grundarfirði, Stykkishólmi, Rifi, Arnarstapa, Akranesi, Reykjavík og Þorlákshöfn.

Seld voru 44.747 tonn af fiski fyrir 5.367 milljónir krónar og var meðalverð á kíló 120 krónur.

Árið áður hjá Fiskmarkaði Íslands voru seld 44.657 tonn af fiski fyrir 5.559 milljónir króna og var meðalverðið á kiló 124 krónur.