Sjávarútvegsráðherra hefur svarað mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna (SÞ) vegna álits hennar frá 24. október síðastliðnum þar sem nefndin gagnrýndi íslensk stjórnvöld fyrir fiskveiðikerfið hvatt til breytinga á því.

Í svari sjávarútvegsráðherra kemur fram að kærendum verða ekki greiddar skaðabætur né fiskveiðistjórnarkerfinu íslenska „umbylt í einu vetfangi,“ segir í svari ráðherra og verði nefndin að hafa skilning á að kerfi sem þróast hafi á undanförnum áratugum verði ekki bylt á sex mánuðum. Um sé að ræða langtímaverkefni og verði sérstökum vinnuhópi falið það starf.

„Hins vegar er boðað að efnt verði til allsherjarskoðunar á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu í náinni framtíð með breytingar í huga þannig að komið verði til móts við kröfur mannréttindanefndar SÞ, eftir því sem unnt er, segir í svari ráðherra.

Bætur sagðar myndu kollvarpa íslenska kerfinu

Í svari íslenska ríkisins segir m.a. að það telji ekki forsendur fyrir skaðabótagreiðslu „enda gæti slíkt leitt til þess að fjöldi manns gerði skaðabótakröfur á hendur ríkinu, sem að gildandi landsrétti fá ekki staðist ... Í ljósi sjónarmiða um jafnræði borgaranna væri stjórnvöldum ekki stætt á öðru en að greiða öllum öðrum í sambærilegri stöðu og kærendur einnig skaðabætur. Auk þessi myndi í þessu felast viðurkenning í þá veru að allir sem eiga eða ákveða að kaupa skip með veiðileyfi ættu rétt til úthlutunar aflaheimilda. Þessi staða myndi í raun þýða að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu væri kollvarpað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir  stjórn fiskveiðiauðlindanna, vernd fiskistofna á Íslandsmiðum og efnahagslegan stöðugleika á Íslandi.”

Hér má sjá svar ráðherra í heild.