Matsfyrirtækið Fitch lækkaði lánshæfiseinkunnir Portúgals úr BBB- í BB+ í dag. Það merkir að lánshæfi landsins, sem er eitt þeirra evruríkja sem standa höllum fæti í skuldakreppunni, er komið í ruslflokk. Horfur eru neikvæðar, að mati Fitch.

Moody's færði lánshæfi Portúgals í sama flokk í sumar. Í rökstuðningi matsfyrirtækisins segir að skuldir landsins hafi aukist og séu nú orðnar þvílíkar byrðar á hagkerfinu að óvíst sé hvort landið beri þær.

Ríkissstjórn landsins er með niðurskurðarhnífinn á lofti þessa dagana og vinnur að því að draga úr halla á fjárlögum til að mæta kröfum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í ríkisfjármálum. Hallinn var 9,8% af landsframleiðslu í fyrra og er stefnt að því að koma honum í 5,9% á þessu ári. Þak Evrópusambandsins hljóðar upp á 3% halla sem hlutfall af landsframleiðslu.

Náist áætlanir stjórnvalda verður landið gjaldgengt til að fá 78 milljarða evra neyðaraðstoð.

Almennt er reiknað með 3% samdrætti í Portúgal á næsta ári. Samdrátturinn er talinn verða 2,8% í Grikklandi. Þetta verða einu evrulöndin sem enda árið í mínus, samkvæmt upplýsingum Bloomberg.