Fjöldi fasteignafélaga hérlendis sérhæfir sig í atvinnuhúsnæði og sífellt fleiri bætast í hópinn. Þá hefur heyrst af því að margir aðilar hugsi sér nú til hreyfings á atvinnuhúsnæðismarkaðnum og leita sjóðsstjórar og bankamenn nú meðal annarra leiða til að stofna sérhæfða fasteignasjóði með aðkomu lífeyrissjóða og stærri fjárfesta. Þetta kemur meðal annars fram í nýrri skýrslu um atvinnuhúsnæðismarkaðinn sem unnin var í tengslum við hlutafjárútboð fasteignafélagsins Reginn ehf.

Þar segir jafnframt að á meðan sterkefnaðir, almennir innlendir fjárfestar hafi frumkvæði að fjárfestingu í atvinnuhúsnæði horfi minni fjárfestar hugsanlega frekar til hlutabréfaútboðs fasteignafélaga eins og Regins eða smærri eigna.Ásgeir Jónsson, lektor við hagfræðideild Háskóla Íslands, segir félögin svara vaxandi eftirspurn fjárfesta eftir fasteignum.

Af nýjum sjóðum má til dæmis nefna fasteignasjóð Stefnis, eignastýringarfyrirtækis Arion banka, Fast-1 sem er sjóður sem VÍB, eignastýringarþjónusta Íslandsbanka, starfrækir. Þá rekur MP banki Fasteignasjóð Íslands

Ásgeir Jónsson lektor furðar sig ekki á að aukinn áhugi sé á fjárfestingum í atvinnuhúsnæði. „Í fyrsta lagi er verð á fasteignum núna tiltölulega lágt þannig að núna ætti að vera hagstæður tími til að kaupa. Í öðru lagi eru fasteignir heppilegar eignir í safni fjárfesta.

Ásgeir bendir því á að margir íslenskir fjárfestar eigi nú mikið af skuldabréfum og jafnvel innlánum en lítið af hlutabréfum þar sem hlutabréfamarkaðurinn hrundi við upphaf kreppu. „Þannig að fasteignir fylla að einhverju leyti það skarð sem hlutabréfaviðskipti skildu eftir.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.