Jarðboranir hf. undirrituðu í dag, að viðstöddum iðnaðar- og viðskiptaráðherra, samning við þýska fyrirtækið Herrenknecht Vertical GmbH um kaup og kauprétt á hátæknivæddum stórborum sem eru sérstaklega hannaðir til að afla jarðhita á miklu dýpi. Þetta verða stærstu og öflugustu borar í tækjaflota Jarðborana en þeir eru tvöfalt öflugri en núverandi borar félagsins. Heildarvirði samningsins er um 6 milljarðar króna segir í frétt félagsins.

Þar kemur fram að kaupin á borunum eru liður í stóraukinni útrás á erlenda markaði. Fyrirhugað er að fyrstu verkefni nýju boranna verði í Suður-Þýskalandi fyrir lok þessa árs. Þar verður borað niður á allt að 5.000 m dýpi til að ná í nægjanlegan hita en til samanburðar hefur lengst verið borað hér á landi niður á 2.500 - 3.000 m.

Um er að ræða nýja kynslóð hátæknivæddra bora þar sem áhersla er lögð á aukna sjálfvirkni, aukin afköst og meira öryggi starfsmanna. Sérstaklega er lagt upp úr því að borarnir séu umhverfisvænir, fyrirferðarlitlir og hljóðlátir og vinnuaðstaða sé eins og best er á kosið. Stjórnbúnaður, sjálfvirkni og fullkomið skráningarkerfi auka öryggi áhafnar, stuða að skilvirkni og auðvelda yfirsýn og ákvarðanatöku. Í áhöfn nýju boranna hvers um sig verða um 30 manns.

Nýju borarnir geta hver og einn lyft 350 tonna þyngd. Þeir búa yfir nær tvöfalt meir borgetu en öflugustu borar Jarðborana sem fyrir eru og því er ljóst að tilkoma þeirra markar tæknileg þáttaskil í starfsemi samstæðunnar. Búið er að ganga frá kaupum á fyrsta bornum og verður hann afhentur í haust. Gert er ráð fyrir að næsti bor verði afhentur um mitt næsta ár.