Í útboðið Lánamála, sem gefur meðal annars úr óverðtryggð ríkisskuldabréf, á föstudag bárust alls tilboð að fjárhæð 835 milljónir króna að nafnverði í flokkinn RIKB16 (sem er á gjalddaga 2016) og var þeim tekið fyrir 785 milljónir króna á 5,54% ávöxtunarkröfu. Í Greiningu Íslandsbanka segir að  niðurstöðukrafan hafi jafnframt verið mun hærri en hún hefur verið í síðustu útboðum á flokknum sem hafi ekki komiði á óvart enda hafi krafa útistandandi bréfa í flokknum á markaði farið hækkandi.

Í frétt Greiningar kemur fram að ljóst sé að áhuginn var samt meiri að þessu sinni en í síðasta útboði Lánamála á flokknum sem fór fram í marsbyrjun. Lánamál höfnuðu þá öllum tilboðum í flokkinn, en þau virtust aðeins koma frá aðalmiðlurum sem er skylt að gera tilboð.

„Krafa flokksins í lok dags síðastliðinn föstudag var 5,57% en svo há hefur hún ekki verið síðan seint í nóvember á síðasta ári. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hverjir voru stærstu kaupendur bréfa í flokknum á föstudag, en hingað til hafa verðbréfa- og fjárfestingasjóðir verið fyrirferðamestir. Í lok febrúar áttu þeir 45% útistandandi bréfa í flokknum sem er eftir útboðið á föstudag rúmlega 27 milljarðar króna að stærð," segir í frétt Greiningar Íslandsbanka.