Bandarísku fyrirtækin Equinix og Digital Realty leiða alþjóðlegan iðnað gagnavera í heiminum. Gagnaver fyrirtækjanna hýsa gagnavinnslu- og geymslukerfi sem gera fyrirtækjum kleift að stunda vefþjónustu.

Bæði félögin hafa hækkað um tæp 18% á árinu en kórónuveiran hefur fært atvinnustarfsemi í auknum mæli á netið. S&P 500 vísitalan hefur á sama tíma lækkað um rúm 5%. Samanlagt markaðsvirði fyrirtækjanna tveggja er nú um 99 milljarða dollara eða um 13.421 milljarða íslenskra króna.

Hækkun hlutabréfanna endurspeglar þá gífurlegu aukningu á notkun stafrænna verkvanga á undanförnum mánuðum þar sem heimsfaraldurinn hefur haldið fólki heima fyrir og gert það háð netinu fyrir vinnu, skóla og afþreyingu.

„Gagnaver eru á hinum enda Covid-19 krísunnar,“ er haft eftir Steve Shigekawa, sjóðsstjóra hjá eignarstýringarfyrirtækinu Neuberger Berman í New York, í grein Financial Times . „Við heyrum um neikvæð áhrif á flugfélög og hóteliðnaðinn en fyrir gagnaver hefur þróunin undirstrikað nauðsyn þess að hafa stafræna innviði.“

Meirihluti fyrirtækjanna sem halda úti gagnaverum eru byggð upp sem fasteignarsjóðir vegna skattalegra ástæðna. Hluti af hækkun hlutabréfa fyrirtækjanna er vegna þess að fjárfestar hafa fært sig úr öðrum fasteignafjárfestingum sem hafa orðið fyrir barðinu af lokunum sökum faraldursins, líkt og verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Colony Capital, um 50 milljarða dollara fjárfestingarsjóður, hefur fjárfest af krafti í fasteignum á sviði stafrænna innviða. Þessar fjárfestingar muna vega um 90% af eignasafni sjóðsins í lok næsta árs en hlutfall þeirra var einungis 2% fyrir tveimur árum.

Eignarstýringarfyrirtækið MFS í Boston jók við stöðu sína í gagnaveitum í marsmánuði. Gagnaveitu fyrirtækin þykja aðlaðandi þar sem „sigurvegararnir í skýjaþjónustu hafa náð fótfestu og eru vel tilgreindir,“ segir Rob Almeida, greinandi hjá MFS.

MFS hefur einnig fjárfest í fyrirtækjum sem framleiða aðföng fyrir gagnaveitur, líkt og örgjafaframleiðendunum Broadcom og Nvidia. Það síðarnefnda tilkynnti í síðasta mánuði að sala til gagnaveita hefði í fyrsta sinn verið meiri en einn milljarður dollara á fyrsta fjórðungi ársins.

Eftir því sem samkeppni gagnavera eykst því meiri áhersla verður lögð á hagkvæmni stærðar. Equinix tilkynnti eins milljarðs samstarfsverkefni með GIC, þjóðarsjóður Singapúr, um að opna gagnaver í Japan. Digital Realty tilkynnti í mars um átta milljarða dollara kaup á evrópsku samstæðunni Interxion.

Áhugi framtaksfjárfesta hefur einnig aukist en KKR lögðu fram einn milljarð dollara sem eigið fé til þess að stofna og eignast evrópsk gagnaver sem stefna á þjónustu við viðskiptavini með mikið gagnamagn líkt og stór tæknifyrirtæki sem fleiri netþjóða er þeir vaxa.