Hlutaréfavísitölur í Evrópu hafa lækkað töluvert það sem af er degi vegna úrslitanna í ítölsku þingkosningunum í gær. Markaðir í Asíu lækkuðu einnig umtalsvert og má sem dæmi nefna að japanska Nikkei vísitalan lækkaði um ein 2,26% í dag.

Þegar öll atkvæði, sem greidd voru á Ítalíu, voru talin hafði bandalag flokka vinstra megin við miðju stjórnmálanna unnið nauman sigur í fulltrúadeild ítalska þingsins, en hafði ekki meirihluta í öldungadeildinni. Eftir á að telja atkvæði sem greidd voru erlendis. Óttast margir að hafi stjórnin ekki meirihluta í báðum deildum þingsins verði erfitt eða jafnvel ómögulegt að koma í gegn nauðsynlegum lagabreytingum til að örva ítalska hagkerfið.

Breska FTSE vísitalan hefur lækkað um 1,29%, þýska DAX vísitalan um 1,82% og franska CAC vísitalan um 2,11%. Ítalska MIB vísitalan hefur svo fallið um ein 4,7%. Þá hækkaði ávöxtunarkrafa á ítölskum ríkisskuldabréfum skarpt, sem gefur til kynna að fjárfestar séu ragir við að veita ítalska ríkinu lán við núverandi aðstæður.