Hagnaður Icelandair Group árið 2015 nam 111,2 millj­ónum Bandaríkjadala, eða 14,1 milljarði króna. Þetta er töluverð aukning hagnaðar frá árinu áður, eða 67%. EBITDA hagnaður nam 219,0 milljónum dala samanborið við 154,3 milljónir dala árið 2014. Rekstrartekjur jukust um 2% á milli ára og tekjuaukning á föstu gengi nam 12%.

„Olía lækkaði mikið á árinu og félagið naut góðs af því. Einnig var um metsætanýtingu að ræða á árinu,“ segir Ragnar Benediktsson hjá IFS Greiningu. Spurð­ ur að því hvað hafi mest komið á óvart við uppgjör Icelandair segir Ragnar það hafa verið hversu EBITDA viðmið félagsins fór sífellt hækkandi yfir allt árið. „Maður veltir því fyrir sér hvort svipað sé uppi á teningnum núna þetta ár. Fjárfestar eru í bolagír á Icelandair.“

Hann segir einnig áhugavert að sjá vöxtinn í VIA farþegum. „Við teljum að vaxtarmöguleikar Icelandair séu einmitt í VIA farþegum. Það er spáð mikilli aukningu ferðamanna til Íslands á þessu ári. Það sem ekki allir gera sér grein fyrir er að önnur flugfélög styðja í raun við vöxt Icelandair Group í gegnum hótelstarfsemi félagsins. Síðasti fjórðungur var yfir okkar væntingum. Tekjur voru hærri, kostnaður nokkuð á pari við okkar væntingar og þar af leiðandi skaust EBITDA upp fyrir okkar markmið.“

Jóhanna Katrín Pálsdóttir hjá Íslandsbanka segir að sterkur heimamarkaður og jákvæð þróun í verðlagningu olíuverðs samhliða skynsamlegri markaðssókn hafi skilað Icelandair Group félaginu mjög góðu ársuppgjöri.

„Það sem helst hefur komið á óvart er hversu lítil verðsamkeppni virð­ist hafa verið á markaðssvæði félagsins á síðasta ári. Í byrjun árs bjuggust flestir við meiri verðsamkeppni í flugi yfir NorðurAtlantshaf en raunin varð á árinu. Flugfélög virðast almennt hafa nýtt jákvæða þróun eldsneytisverðs til að bæta rekstrarafkomu fremur en lækka verð og IATA áætlar raunar að arðsemi fjármögnunar í flugrekstri hafi verið umfram kostnað hennar á síðasta ári og verði það einnig í ár, sem sögulega er frekar sjaldgæft.“

Nánar er fjallað um málið í Úr Kauphöllinni, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem fylgdi með blaðinu í morgun. Áskrifendur geta lesið Úr Kauphöllinni með því að smella hér.