Fjárfestar eru víðar en á Íslandi farnir að horfa á íbúðarhúsnæði sem leið til að ávaxta aurinn. Bandaríski bankinn JP Morgan Chase hefur sett á stofn fyrirtæki sem efnameiri viðskiptavinir bankans geta fjárfest í. Félagið hefur þegar keypt um 5.000 einbýlishús í Flórída, Arizona, Nevada og Kalíforníu og gerir bankinn ráð fyrir því að ávöxtun verði um 8% á ári. Ávöxtunin kemur bæði til vegna leigutekna af eignunum og þá er gert ráð fyrir því að eignirnar hækki í verði.

Blackstone Group hefur einnig stigið sín fyrstu skref inn á þennan markað og hefur þegar keypt fasteignir fyrir um 2,7 milljarða dollara. Verð á íbúðarhúsnæði hefur hækkað hraðar en Blackstone spáði fyrir um í upphafi og hefur fyrirtækið því hraðað kaupum undir það síðasta.

Húsnæðishækkunin hefur þegar leitt til mikilla hækkana á gengi hlutabréfa verktakafyrirtækja og heimilistækjaframleiðenda. Er ekki búist við því að þær hækkanir haldi áfram og eru fjárfestar því spenntari fyrir því að fjárfesta í sjóðum eða félögum eins og því sem JPMorgan stendur fyrir.