Mikil lækkun hefur orðið á ávöxtunarkröfu ríkistryggðra skuldabréfa í kjölfar gengisdóms Hæstaréttar og hefur krafa á óverðtryggðum bréfum lækkað mikið. Lækkunin hefur leitt þess að verðbólguálag til þriggja ára, sem er í stuttu máli mismunur á kröfu verðtryggðra og óverðtryggðra bréfa, hefur dregist hratt saman og lækkað úr 4,7% í 1,25% á fyrstu sex mánuðum ársins.

Greiningardeild Arion banka fjallar um verðbólguálagið í nýlegum markaðspunkti og segir að miðað við álagið búist fjárfestar við að verðbólga verði um eða undir 1,6% á næstu þremur árum. Ennfremur segir greiningardeildin að eflaust eigi margir erfitt með að trúa því að verðbólga muni haldast svo lág í nokkur ár, miðað við þá verðbólgutíð sem verið hefur.