Gengi evrunnar hefur styrkst nokkuð gagnvart bandaríkjadal eftir að Mario Draghi, bankastjóri evrópska seðlabankans, greindi frá þeirri áætlun að bankinn ætli að bretta upp ermarnar í baráttunni við skuldakreppuna á evrusvæðinu og kaupa ríkisskuldabréf verst settu evruríkjanna á eftirmarkaði í þeim tilgangi að lækka fjármagnskostnað þeirra.

Gengi evru hefur nú ekki verið hærra gagnvart jeni og svissneskum franka um nokkurra vikna skeið. Það hefur ekki verið hærra gagnvart bandaríkjadal í tvo mánuði. Þá lækkaði sömuleiðis krafa á spænsk og ítölsk ríkisskuldabréf og er álagið á þau nú komið undir 6%. Það hefur ekki verið lægra síðan í byrjun sumars.

Fjárfestar á meginlandi Evrópu tóku sömuleiðis vel í aðgerðir evrópska seðlabankans. Þjóðverjar og Frakkar tóku sérstaklega vel í þær og kom jákvæðni þeirra skýrt fram í þróun hlutabréfavísitalna. CAC 40-vísitalan í Frakklandi hefur hækkað um tæp 1,5% og DAX-vísitalan í Þýskalandi hefur hækkað um rúmt prósent. Þá hefur FTSE-vísitalan í Bretlandi hækkað talsvert minna eða um 0,3%.