Olíuverð hækkaði nokkuð í morgun vegna væntinga um að Mario Draghi, bankastjóri evrópska seðlabankans, muni gefa græna ljósið á kaup skuldabréfa skuldsettra evruríkja og gera þeim þar með kleift að fjármagna sig á tiltölulega ódýran máta til allt að þriggja ára. Líkur eru á að bandaríski seðlabankinn muni jafnframt halda áfram að örva hagkerfi landsins.

Norðursjávarolía fór í 116 dali á tunnu og hráolían fór í 97 dali.

Reuters-fréttastofan hefur eftir fjármálasérfræðingum að Draghi hafi í raun gefið þetta í skyn í erindi sem hann hélt í gær, að kaupin brjóti ekki í bága við lög og reglur Evrópusambandsins.

Fréttastofan hefur hins vegar eftir Carsten Fritsch, sérfræðingi í orkumálum hjá Commerzbank í Þýskalandi, að olíubirgðir séu miklar um þessar mundir þar sem olíuframleiðsluríki heimsins hafi sett allt á fullt. Sem dæmi hafi olíuframleiðsla í Rússlandi ekki verið meiri síðan Sovétríkin liðuðust í sundur. Á sama tíma hafi samdráttur í helstu ríkjum heims dregið úr eftirspurn eftir olíu og eldsneyti og því hrannist birgðirnar upp.