Fjárfesting í hagkerfinu er í sögulegu lágmarki samkvæmt Greiningu Íslandsbanka en eins og fram hefur komið tilkynnti Hagstofan í morgun bráðabirgðatölur um landsframleiðslu á fyrri hluta ársins. Þar kemur fram að hagkerfið hafi dregist saman að raunvirði á milli fjórðunga um 2,8%.

„Fjárfesting jókst lítið á öðrum ársfjórðungi og hægar en á þeim fyrsta. Mældist vöxturinn 1% samanborið við 3,5% vöxt á fyrsta árfjórðungi. Ljóst er að fjárfesting er ekki að taka við sér að neinu marki í hagkerfinu og fjárfestingarstigið er því enn lágt. Vöxtur er þó tekinn við af miklum samdrætti sem verið hefur í fjárfestingum á síðustu árum. Fjárfesting nam 13% af VLF árið 2010, sem er mjög lágt í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Hlutfallið var þó enn lægra á fyrri hluta yfirstandandi árs, eða 12,4%. Í spá Seðlabankans er gert ráð fyrir ríflega 10% vexti fjármunamyndunar á þessu ári, og ljóst að mikinn vöxt þarf til á seinni helmingi ársins ef sú spá á að ganga eftir,“ segir í Morgunkorni Íslandsbanka.