Gert er ráð fyrir að fjármunamyndun dragist saman um 9,5% á þessu ári í nýrri þjóðhagsspá Landsbankans. Samdrátturinn skýrist alfarið af miklum samdrætti í fjárfestingum atvinnulífsins sem dróst saman um rúm 30% á fyrri helmingi ársins. Hins vegar spáir bankinn að það hægi mjög á samdrættinum á síðari helmingi ársins þannig að hann verði 21,2% árinu 2019.

Þetta er mesti samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu síðan 2009 og skýrist fyrst og fremst af samdrætti í almennri atvinnuvegafjárfestingu og fjárfestingu í skipum og flugvélum, sér í lagi sölu Wow air á fjórum farþegaþotum til Air Canada í byrjun árs.

Bankinn gerir ráð fyrir fjármunamyndun aukist á nýjan leik á næsta ári eða um 8,9% og að allir undirliðir fjármunamyndunar vaxi þ.e. atvinnuvegafjárfesting, fjárfesting hins opinbera og íbúðafjárfesting. Hins vegar er reiknað með tiltölulega litlum vexti fjármunamyndunar á árunum 2021 og 2022 en að hann verði borinn af aukinni atvinnuvegafjárfestingu.

Bankinn reiknar þó með að fjárfesting hins opinbera komi til með að aukast gríðarlega mikið á næstu árum. Samkvæmt spánni mun hið opinbera fjárfesta fyrir 115 milljarða króna á þessu ári, 127 milljarða króna á næsta ári, 133 milljarða króna árið 2021 og loks fyrir 140 milljarða árið 2022, miða við verðlag ársins 2018.

Til samanburðar nam fjárfesting hins opinbera 65 milljörðum króna að meðaltali á árunum 2011-2016. Árið 2016 fjárfesti hið opinbera fyrir tæpar 70 milljarða króna sem þýðir að ríkið mun fjárfesta tvöfalda þá upphæð árið 2022, gangi spáin eftir.

Fjárfesting hins opinbera í spánni er einnig mjög mikil þegar miðað er við hlutfall af vergri landsframleiðslu. Samkvæmt spánni verður hlutfallið næstu þrjú ár í hæstu hæðum sögulega miðað við síðastliðna tvo áratugi og verði 5,3% af vergri landsframleiðslu árið 2022, en svo hátt hefur það ekki verið áður.

Á sama tíma gerir spáin ráð fyrir að skuldir hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu muni lækka ár af ári og fara úr 28% af vergri landsframleiðslu niður í tæp 20% árið 2022.