Greiningardeild Kaupþings hefur uppfært verðmat sitt á Actavis í tengslum við útgáfu afkomuspár fyrir fyrsta ársfjórðung. Verðmatsgengið er 75,2 krónur á hlut og tólf mánaða markgengið er 83 krónur á hlut. Markaðsgengið er 77,5, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Ráðgjöf greiningardeildar er hlutlaus.

?Actavis virðist við fyrstu sýn vera hærra verðlagt en meðaltal þeirra félaga sem við berum Actavis jafnan saman við. Að teknu tilliti til vaxtar í hagnaði á hlut er félagið þó í hópi þeirra ódýrustu á markaði. Einnig eru verðkennitölur Actavis nokkuð undir þeim verðkennitölum sem sést hafa í yfirtökum á samheitalyfjafyrirtækjum undanfarið," segir greiningardeildin.

Hún telur að fjórðungurinn verði ágætur en þó líklega sá lakasti á árinu, þar sem áhrifa af skráningum nýrra lyfja mun ekki gæta í jafn miklum mæli og á síðari hluta ársins.