Hreinar fjáreignir heimila námu 132% af vergri landsframleiðslu í lok ársins 2014 og hafa aukist stöðugt frá árinu 2008 eftir að þær höfðu lækkað nokkuð. Fjáreignir heimila námu 4.562 milljörðum króna í árslok 2014 og fjárskuldbindingar heimila voru 1.962 milljarðar króna á sama tíma. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans í dag.

Á verðlagi ársins 2015 námu hreinar fjáreignir heimilanna í landinu tæpum 2.700 milljörðum króna. í árslok 2014. Þær höfðu þá hækkað um rúma 800 milljarða frá árinu 2008 eftir að hafa lækkað nokkuð milli ára. Hækkunin frá 2008 nemur 43%.

Í greiningunni segir að sé litið á fjárhagslega eignahlið heimilanna í árslok 2014 sjáist að langstærstur hluti þeirra, eða 76%, eru lífeyrisréttindi. Sjóður og innistæður nema svo um 14% fjáreigna. Áþreifanlegustu og sýnilegustu eignir hvers heimilis eru fasteign og ökutæki. Þær eignir eru ekki taldar til fjáreigna.

Fasteignir og lífeyriseignir stækka

Bæði fasteignir og lífeyriseign minnkuðu töluvert í hruninu, fasteignirnar mun meira. Báðir eignaflokkar hafa stækkað verulega frá árinu 2010 og á það sérstaklega við um lífeyrisréttindi heimilanna. Fasteignin var stærsta eign heimilanna allt fram til ársins 2010 en síðan þá hefur lífeyriseignin verið stærsta eign íslenskra heimila.

Áhugasamir geta kynnt sér Hagsjána í heild hér.