Skarphéðinn Berg Steinarsson mótmælti hjá sýslumanninum í Reykjavík að fimm milljónir króna á bankareikningi hans yrðu kyrrsettar þar sem fjárhagsstaða hans væri mjög slæm, meðal annars með vísan til þess að hann væri án atvinnu og með miklar veðskuldir.

Með bréfi Skattrannsóknarstjóra ríkisins til tollstjóra var farið fram á að tollstjóri hlutaðist til um að eignir Skarphéðins Bergs, fyrrverandi stjórnarmanns í FL Group/Stoða að fjárhæð 90 milljónir króna yrðu kyrrsettar til tryggingar greiðslu væntanlegrar fésektar vegna gruns um að hann hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi í tengslum við skattrannsókn á FL Group.

Eftir ábendingu Skarphéðins var eignarhlutur hans í tveimur fasteignum samtals að upphæð 22 milljónir króna og Range Rover Sport supercharger bifreið, árgerð 2006, að upphæð 6 milljónir króna kyrrsettar.

Þá vildi Tollstjórinn kyrrsetja rúmar fimm milljónir króna sem Skarphéðins átti á bankareikningi.

„[Skarphéðinn Berg] mótmælti að sú eign yrði kyrrsett þar sem fjárhagsstaða hans væri mjög slæm, meðal annars með vísan til þess að hann væri án atvinnu og með miklar veðskuldir. Var af hálfu varnaraðila fallist á, með vísan til sjónarmiða varðandi framfærslu sóknaraðila og fjölskyldu hans, að kyrrsetningin skyldi ná til 3.000.000 króna af framangreindri fjárhæð og að sóknaraðila væri heimilt að færa mismuninn á sérreikning," segir í úrskurði Héraðsdóms frá 2. júní sl.

Niðurstaða Héraðsdóms var sú að ekki væri hægt að kyrrsetja þessar eignir Skarphéðins Bergs lögum samkvæmt. Málinu var vísað til Hæstaréttar sem staðfesti úrskurð Héraðsdóms í gær.