Í grein sem birtist í Fréttablaðinu í morgun undir heitinu: Fjármagnshöftin - vernd eða vá? segir Þorsteinn Víglundsson afnám fjármagnshafta vera mikilvægasta verkefnið sem íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir í dag. Hann bendir á að þrátt fyrir að verkefnið sé ekki einfalt og að afnámi hafta muni óhjákvæmilega fylgja óvissa séu aðstæður til afnáms þeirra eins hagstæðar og kostur er á. Þorsteinn bendir á að efnahagslífið sé í ágætu jafnvægi, verðbólga sé lág, hagvöxtur sé tekinn að aukast á nýjan leik og traust á íslenska hagkerfinu fari vaxandi.

Í grein sinni segir Þorsteinn ekki sjálfgefið að góðar aðstæður til afnáms hafta verði viðvarandi. Hann segir hættu á að hagkerfið ofhitni innan hafta vegna þess að höftin stuðli að rangri verðlagningu krónunnar sem og allra helstu eignamarkaða. Hann segir stærstu efnahagslegu áhættu Íslendinga felast í að búa við höft við ókomna tíð. Þorsteinn segir fjármagnshöftin vera stærstu ógnina við efnahagslegan stöðugleika hér á landi. Hann segir því afnám þeirra vera nauðsynlega forsendu heilbrigðs og stöðugs efnahagslífs og batnandi lífskjara hér á landi.

Þorsteinn bendir á að enn bóli ekkert á afnámi hafta en hann telur að óttinn við gengislækkun og meðfylgjandi verðbólgu virðast skýra aðgerðaleysi stjórnvalda.

Þorsteinn bendir á að auk þess að auka mjög innlenda þenslu og valda umtalsverðum verðubólguþrýstingi á næstu árum þá sé einnig hár kostnaður í hagkerfinu vegna glataðra fjárfestingartækifæra sökum hafta.

Um þessar mundir er viðsnúningur í öflugan hagvöxt hér á landi og horfur á 3-4% árlegum hagvexti. Þorsteinn bendir á að við upphaf þessa krötuga  hagvaxtarskeiðs eru mikilvægar hagstærðir óvenjulegar og geta ýtt undir ofþenslu. Hann telur líklegt að því muni fylgja bólumyndun á eignamörkuðum á komandi árum og í kjölfarið muni síðan fylgja aukin verðbólga, gengisfall og efnahagskreppa. Auk þess hefur Þorsteinn áhyggjur af því að ekki séu raunhæfar ávöxtunarforsendur fyrir lífeyrissjóði til að ávaxta fé sitt að lágmarki 3,5 prósenta til lengri tíma.