Skyldur og ábyrgð vátryggingamiðlara og umboðsmanna vátrygginga var meðal þess sem rætt var á fundi Fjármálaeftirlitsins með fulltrúum eftirlitsskyldra aðila á tryggingamarkaði sem haldinn var í húsakynnum FME í dag eins og kemur fram í frétt á heimasíðu FME.

Þar kemur fram að Fjármálaeftirlitið hefur unnið að athugun á framkvæmd upplýsingaskyldu samkvæmt lögum um miðlun vátrygginga nr. 32/2005. Áhersla hefur verið lögð á rökstuðning ráðgjafar skv. 31. gr. og 52. gr. nefndra laga. Með lögunum voru innleidd ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um miðlun vátrygginga (nr. 2002/92/EB). Lögin hafa margvísleg nýmæli í för með sér fyrir vátryggingamiðlara, vátryggingaumboðsmenn og vátryggingasölumenn á þeirra vegum.

Samkvæmt nefndum ákvæðum skal vátryggingaumboðsmaður og/eða vátryggingamiðlari áður en vátryggingarsamningur er gerður skilgreina, einkum á grundvelli upplýsinga frá væntanlegum vátryggingartaka, kröfur og þarfir hans. Hann skal skýra væntanlegum vátryggingartaka frá ástæðum sem liggja að baki ráðleggingum hans. Umfang skýringa miðast við hversu flóknum vátryggingarsamningi mælt er með. Í 33. gr. og 54. gr. sömu laga er fjallað um form upplýsinganna. Efnislega kemur fram að þær skuli vera skriflegar þannig að þær séu viðtakandanum skiljanlegar og á íslensku eða öðru tungumáli sem báðir aðilar samþykkja.

Í viðræðum við Fjármálaeftirlitið höfðu nokkrir eftirlitsskyldir aðilar lýst yfir efasemdum um framkvæmd upplýsingaskyldu. Samtök aðila óskuðu eftir því við Fjármálaeftirlitið að fundur yrði haldinn þar sem fjallað yrði um áherslur eftirlitsins og kröfur nefndra laga um upplýsingaskyldu.

Á fundinum gerði Rúnar Guðmundsson, sviðstjóri vátryggingasviðs FME, grein fyrir réttarstöðu aðila og áherslum Fjármálaeftirlitsins, Bjarni Kristjánsson KB líf hf. og Karl Jónsson Tryggingamiðlun Íslands ehf., gerðu grein fyrir framkvæmd upplýsingaskyldu. Að því loknu voru fyrirspurnir og umræður.

Fjármálaeftirlitið fer þess á leit við vátryggingamiðlara og vátryggingaumboðsmenn þ.á m. vátryggjendur vegna eftirlitshlutverks þeirra með umboðsmönnum, að þeir gæti vandlega að þeirri upplýsingaskyldu sem lög kveða á um.