Sala Benedikts Jóhannessonar, stjórnarformanns Nýherja, kann að vera til skoðunar í Fjármálaeftirlitinu. Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að eftirlitinu hafi borist ábending um málið á mánudag. Fjármálaeftirlitið verst frétta af málinu enda er því óheimilt að ræða einstök mál við fjölmiðla.

Málavextir eru þeir að 23. nóvember seldi Benedikt Jó­hannesson og aðilar honum tengdir bréf í félaginu að nafnvirði alls níu milljónir króna á genginu 14,7.Nam söluandvirðið 132,3 milljónum króna.

Rúmlega viku seinna, eða 3. desember ákvað stjórn félagsins að bjóða út allt að 40 milljónir hluta í lokuðu hlutafjárútboði og nýta þar með heimild aðalfundar frá 14. mars 2014 til hlutafjárhækkunar, þar sem hluthafar félagsins féllu frá forgangsrétti að hinum nýju hlutum.

Hefði geta lækkað gengið

Sala á svo stórum hlut hefði getað sett þrýsting á gengi félagins. Það gerðist þó ekki heldur hækkaði gengið og Benedikt og tengdir aðilar urðu af 22,5 milljónum ef þeir hefðu selt í gær.

Benedikt er fruminnherji í skilningi laga um verðbréfaviðskipti. Innherja er óheimilt að afla eða ráðstafa fjármálagerningum, s.s. hlutabréfum, búi hann yfir innherjaupplýsingum.

Með innherjaupplýsingum er átt við nægjanlega tilgreindar upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar og varða útgefendur fjármálagerninga, t.d. félög skráð á markaði, fjármálagerningana sjálfa eða önnur atriði og eru líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna ef opinberar væru.

Ekki er gerð sérstök krafa í ákvæðum um innherjaviðskipti að sá sem brýtur reglurnar hafi hagnast á viðskiptunum, heldur er nýting upplýsinganna sjálfra refsiverð. Hvort um hagnað hafi verið að ræða getur hins vegar haft áhrif á ákvörðun um refsingu.