Fjármálaráðherra hefur lagt til við ríkisstjórnina að íslenska ríkið höfði mál gegn ESA, eftirlitsstofnun EFTA vegna sölu á byggingum til Verne, sem rekur gagnaver í Keflavík. Var sagt frá þessu í fréttum Stöðvar 2.

Í síðasta mánuði komst ESA að þeirri niðurstöðu að Verne hefði hlotið ríkisaðstoð í gegnum kaupin á byggingunum á gamla varnarsvæðinu í Keflavík árið 2008. Það var mat ESA að söluvirði bygginganna væri lægra en það sem ESA telur að hafi verið markaðsvirði þeirra. Því úrskurðaði eftirlitsstofnunin á þann veg mismuninn, um 220 milljónir króna, þyrfti ríkið að endurheimta frá Verne, sem og fasteignagjöld og gatnagerðargjöld sem Reykjanesbær hefur veitt Verne undanþágu frá að greiða.

Á ríkisstjórnarfundinum í morgun kynnti Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra Tillögu um málshöfðun fyrir EFTA- dómstólnum vegna málsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 munu kollegar hennar í ríkisstjórninni ekki hafa gert neinar athugasemdir við tillöguna.