Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins átti Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra fund með stjórnendum Icelandair Group í febrúar síðastliðinum, fljótlega eftir að Steingrímur J. tók við embætti ráðherra.

Ekki er vitað hvað fór fram á fundinum en sem kunnugt en greint var frá því í fjölmiðlum í gær að Steingrímur J. hefði gefið það í skyn á opnum atvinnumálafundi á Egilsstöðum á þriðjudag að ríkið gæti þurft að koma að eða taka yfir rekstur Icelandair.

Í samtali við Viðskiptablaðið í gærkvöldi neitaði Steingrímur J. að hafa gefið slíkt í skyn og bæti því við að Icelandair hefði að sínu mati staðið sig mjög vel undanfarið.

Steingrímur J. sagði að rætt hefði verið um eignaumsýslufélag á vegum ríkisins sem gæti þurft að reka hin ýmsu fyrirtæki næstu misseri og þá kom til umræðu að hefja beint millilandaflug frá Egilsstöðum.

Guðjón Arngrímsson, forstöðumaður samskiptasviðs Icelandair sagði í samtali við Viðskiptablaðið í morgun að stjórnendur Icelandair vildu ekki tjá sig um málið. Hann vísaði til þess að Icelandair Group væri skráð félag í Kauphöllinni og uppgjör þess lægju fyrir. Von er á uppgjöri fyrsta ársfjórðungs þessa árs í byrjun maí.