Í ræðu sem fjármálaráðherra Hollands, Wouter Bos, hélt hinn 3. mars sl. sagði hann að evrópska innstæðukerfið væri ekki hannað til að takast á við kerfishrun. Þetta vekur athygli í ljósi þeirra átaka sem nú standa yfir um hvort íslenska ríkinu beri að tryggja útborganir innstæðna Icesave í Bretlandi og Hollandi og það kerfishrun sem varð hér á landi sl. haust.

Ræðan var haldin á ráðstefnu Eymedion Conference og þar fjallaði hann um efnislegt inntak og hlutverk evrópskra réttarreglna um innstæðutryggingar, að því er fram kemur á vef Sigurðar Kára Kristjánssonar .

Þar er vitnað orðrétt í Wouter Bos, sem sagði um innstæðutryggingakerfið evrópska að það væri ekki hannað til að takast á við kerfishrun heldur fall einstaks banka. Evrópuríki þurfa því, að hans sögn, að endurskoða innstæðutryggingakerfið.

Eins og ítrekað hefur komið fram í umræðum um Icesave-málið eru skiptar skoðanir um ábyrgð íslenska ríkisins á innstæðum Icesave í Hollandi og Bretlandi. Margir hafa haldið því fram að tilskipun ESB um innstæðutryggingar, sem Ísland hefur leitt í lög, eigi ekki við þegar kerfishrun verður líkt og gerðist hér á landi. Þeir telja að ríkisábyrgð eigi ekki rétt á sér. Aðrir hafa lýst gagnstæðri skoðun og á því m.a. hafa Bretar og Hollendingar byggt kröfur sínar um íslenska ríkisábyrgð á Icesave-innstæðunum.