Sterlingspundið hélt áfram að falla gagnvart helstu gjaldmiðlum heims í gær og hefur nú náð sínu lægsta gildi gagnvart evru frá upphafi.

Fall pundsins í gær skrifa margir á ómyrk ummæli Alisdairs Darling, fjármálaráðherra Bretlands, um stöðu breska hagkerfisins sem hann lét falla í viðtali við dagblaðið Guardian.

Í viðtalinu færði Darling rök fyrir því að efnahagsváin sem Bretland stæði nú frammi fyrir væri sú versta í 60 ár.

Hagvöxtur í Bretlandi stöðvaðist á öðrum ársfjórðungi og niðursveiflan á breska húsnæðismarkaðnum er sú versta frá upphafi tíunda áratugarins.