Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að með hliðsjón af stöðunni í viðræðunum vegna Icesave-málsins þyki ekki rétt að upplýsa um einstök atriði í umræðum á milli aðila.

Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn Guðfinnu s. Bjarnadóttur alþingismanns, sem spurði um stöðuna í viðræðunum og hver sú hagfellda niðurstaða væri sem ráðherra teldi vera í sjónmáli og vísaði í því sambandi til viðtals á Zetunni á mbl.is.

Spurningin var lögð fram þann 30. mars en svarið lá fyrir í gær.

Viðræður halda áfram á næstu vikum

Í svari ráðherra segir að eins og kunnugt sé hafi fyrir nokkru verið skipuð nefnd til að sjá um samninga og fleira sem tengist Icesave-málinu, en þar er ráðherrann að vísa til nefndar sem skipuð var undir forystu Svavars Gestssonar.

Ráðherra segir að nefndin hafi á undanförnum vikum unnið að verkefni sínu, meðal annars með því að kanna mögulegar leiðir til að ganga frá fjárhagslegri hlið þessara mála með þeim hætti að það samrýmist sem best hagsmunum landsins um leið og það uppfylli þær skuldbindingar sem íslenska ríkið hafi tekið á sig síðast liðið haust.

Haft hafi verið samband við pólitísk og embættisleg stjórnvöld í viðkomandi löndum, þeim kynntar og við þau rætt um ýmsar leiðir til að ganga frá þessum málum. Frekari viðræður fari fram á næstu vikum.