Ríkisstjórn George W. Bush neitar að fjármagna samruna bílaframleiðendanna General Motors og Chrysler.

MSNBC greinir frá þessu.

Samruni fyrirtækjanna verður því í biðstöðu fram yfir bandarísku forsetakosningarnar og eykur á óvissu í bílaiðnaðinum vestanhafs. Talið er að tugþúsundir starfa í bíliðnaðinum séu í hættu þegar fyrirtæki draga saman seglin vegna fjármálakreppunnar.

Þessi töf gerir mögulegt fyirr Cerberus Capital, eiganda Chrysler, að hefja viðræður á nýjan leik við Nissan og Renault, sem eru í eigu Carlos Ghosn.

Chrysler hefur þegar samstarfssamning við Nissan.

Ef General Motors og Chrysler fara í eina sæng verður um að ræða stærsta bílaframleiðanda heims, miðað við sölu, en greiningaraðilar hafa varað við því að sameinuðu fyrirtæki myndi reynast erfitt að snúa gengi félaganna við. Bæði General Motors og Chrysler hafa skilað tapi að undanförnu og sala Chrysler hefur t.d. dregist saman um 25% á þessu ári.

General Motors hafði leitað til bandaríska fjármálaráðuneytisins og beðið um ríkisstuðning upp á 10 milljarða Bandaríkjadala við samrunann, en ríkið hefði fengið hlut í sameinuðu félagi í staðinn. Fjármálaráðuneytið segist hins vegar ekki eiga í viðræðum um aðstoð við samrunann.

Bandaríkjastjórn hyggst hins vegar útvega bíliðnaðinum 25 milljarða dala af ódýru lánsfé til að endurskipuleggja rekstur bílaverksmiðja.