Dregist hefur að klára fjármögnun kísilmálmverksmiðju Thorsil í Helguvík. Viðskiptablaðið greindi frá því í byrjun sumars að til stæði að klára fjármögnun verksmiðjunnar í sumar en Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Thorsil, segir það ekki hafa gengið eftir. Ýmislegt hafi valdið töfunum. Meðal annars hafi samningagerð tekið lengri tíma en gert hafi verið ráð fyrir. Til dæmis geri bankar mjög ríka kröfu um að allar ábyrgðir séu í lagi og það taki sinn tíma að klára slík mál. Hákon segir erfitt að segja nákvæmlega hvenær fjármögnun klárist en ef ekkert stórt komi upp þá ætti það að geta gerst á næstu vikum.

Áætlaður kostnaður við byggingu 54 þúsund tonna verksmiðju Thorsil í Helguvík er 275 milljónir dollara eða tæpir 32 milljarðar króna. Eftir að fjármögnun lýkur þá hefst verkfræði- og útboðsvinna. Reykjaneshöfn, sem hefur umsjón með uppbyggingu iðnaðarsvæðisins í Helguvík, mun afhenda Thorsil verksmiðjulóðina í tilteknu ástandi þegar fjármögnun liggur fyrir. Reiknað er með því að verði í vetur. Hákon segir að þá muni raunveruleg uppbygging verksmiðjunnar hefjast. Í byrjun miðuðu áætlanir við að verksmiðjan tæki til starfa á þriðja ársfjórðungi 2018 en Hákon segir að líklega sé raunhæfara að miða við að það gerist í lok ársins.

Engar viðræður við United Silicon

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Thorsil haft áhuga að kaupa United Silicon, sem þegar hefur byggt kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Hákon segir að þetta sé ekki rétt. Slík viðskipti hafi ekki komið til tals.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .