Stjórn Símans hefur tekið ákvörðun um að skipta fyrirtækinu upp í tvær sjálfstæðar einingar þannig að fjarskiptanetið, eða svokallað grunnet, verði sett í sérstakt fyrirtæki. Verður þessi ákvörðun lögð fyrir hluthafa á ársfundi 15. mars. Ekki er búist við öðru en að hluthafafundur samþykki formlega þessa tillögu sem mun þá strax taka gildi.

Eftir þessar breytingar stendur Síminn með sín dótturfélög, Anza hf., Sirius (upplýsingatæknifyrirtæki Anza á Norðurlöndum), Upplýsingaveitur ehf. (m.a. þjónustufyrirtækið JÁ), Skjárinn miðlar ehf., Tæknivörur ehf., On-waves S.ä.r.l. og Radiomiðlun sem áður hét Fjarskip ehf.

Verður í eigu Skipta ehf.

Nýtt ónefnt þjónustufyrirtæki sem stofnað verður um fjarskiptanetið verður í 100 % eigu Skipta ehf., móðurfélags Símans og verður því systurfélag en ekki dótturfélag Símans. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að ekki séu uppi nein áform á þessari stundu um að selja nýja fjarskiptanetsfélagið frá móðurfélaginu.

Samkvæmt upplýsingum frá Símanum verður skiptasamningur vegna nýja fyrirtækisins ekki tilbúinn fyrr en viku fyrir ársfund, eða þann 8. mars. Ekki sé því hægt að upplýsa um verðmæti fjarskiptanetsins eða grunnnetsins inn í nýtt félag fyrir þann tíma. Margvíslegum ágiskunum hefur þó verið kastað fram um verðmætið og í umræðum á Alþingi í kjölfar sölu Símans 2005 kom fram að verðmæti grunnnetsins væri innan við þriðjungur af 66,7 milljarða króna söluverðmæti Símans, eða eitthvað undir 20 milljörðum króna.

Átökin um grunnnetið

Sem kunnugt er var grunnnet Símans tilefni til pólitískra átaka fyrir sölu ríkisins á Símanum. Voru þá uppi háværar kröfur, einkum úr röðum stjórnarandstæðinga, um að undanskilja grunnnetið við sölu fyrirtækisins. Einnig mótmæltu Og Vodafone, eMax ehf. ásamt Inter og samtökum aðila sem veita internetþjónustu fyrirhugaðri sölu ríkisins á grunnneti fjarskiptaþjónustunnar.

Þá var líka varpað fram þeirri hugmynd að sameina grunnnet Símans, Orkuveitu Reykjavíkur, Og Vodafone, Fjarska, RÚV, Farice og ef til fleiri slík í eitt landsnet sem yrði þá í eigu ríkis og sveitarfélaga eða annarra. Slíkt var þó ekki talið standast samkeppnisreglur EES um fjarskipti.


Niðurstaðan úr öllu þessu var að ríkið seldi Skiptum ehf. Símann með grunnnetinu og öllu saman þann 5. ágúst 2005 fyrir 66,7 milljarða króna. Þeir sem stóðu að baki fjárfestingafélaginu Skiptum ehf. voru; Exista (45%), Kaupþing banki (30%), Lífeyrissjóður verslunarmanna (8,25%), Gildi-lífeyrissjóður (8,25%), Sameinaði lífeyrissjóðurinn (2,25%), Samvinnulífeyrissjóðurinn (2,25%), MP Fjárfestingarbanki (2%) og Imis (2%).

Þreifingar um sölu grunnnets

Fyrir um ári síðan fóru í gang þreifingar á milli Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Símans um hugsanleg kaup þess fyrrnefnda á grunnnetinu. Þær viðræður fóru í gang þegar ljóst var að OR hugðist fara í stóreflingu á sínu gagnaveitukerfi. Ekkert varð þó af því að þær þreifingar leiddu til samninga og tók Guðlaugur Þór Þórðarson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, af skarið í Kastljósþætti Sjónvarpsins í byrjun október 2006.

Sagði hann þar að aldrei hafi komið til greina af hálfu nýs meirihluta í borginni að kaupa grunnetið.
Eftir árangurslausar viðræður við Orkuveituna lá fyrir að Síminn var komnir af stað með nánari skilgreiningu á hlutverki fjarskiptanetsins í samkeppnisumhverfi og var þeirri vinnu haldið áfram. Niðurstaðan af því muni nú líta dagsins ljós í stofnun sérstaks þjónustufyrirtækis Símans um fjarskiptanetið 15. mars.