Fjarskiptafélagið Fjarskipti hf. (Vodafone) hagnaðist um 290 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi borið saman við 391 milljón á sama tímabili í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur félagið því hagnast um 730 milljónir, en í fyrra nam hagnaðurinn 837 milljónum á sama tíma. Þetta kemur fram í nýju árshlutauppgjöri félagsins .

Heildartekjur á þriðja ársfjórðungi námu 3.437 milljónum en voru 3.443 milljónir í fyrra. EBITDA var 853 milljónir en var 927 milljónir á sama tíma í fyrra. Rekstrarhagnaður nam 458 milljónum, en til samanburðar var hann 577 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Fyrstu níu mánuði ársins námu heildartekjur 9.964 milljónum en voru 10.205 milljónir á sama tíma í fyrra. EBITDA var 2.334 milljónir en var 2.346 milljónir í fyrra. Rekstrarhagnaður var 1.177 milljónir borið saman við 1.305 milljónir í fyrra. Hækkar EBITDA hlutfall fyrirtækisins lítillega milli ára, eða úr 23% í 23,4%.

Eignir Fjarskipta í lok september námu 15,3 milljörðum króna. Nettó vaxtaberandi skuldir voru rúmlega 5 milljarðar og eigið fé 7,7 milljarðar. Fjárfestingar á fyrstu níu mánuðum ársins námu 1,2 milljörðum. Handbært fé frá rekstri var 1,6 milljarðar fyrstu níu mánuðina borið saman við 2,1 milljarð á sama tíma í fyrra. Í lok september var handbært fé Fjarskipta 385 milljónir.

Stefán Sigurðsson, forstjóri Fjarskipta, segir félagið nú leggja lokahönd á samrunann við fjölmiðla- og fjarskiptahluta 365.

„Rekstur þriðja fjórðungs einkenndist af áhrifum af reglugerðarbreytingu í reiki, Roam like home, sem hafði umtalsvert neikvæð áhrif á farsímatekjur félagsins borið saman við sama tímabil 2016. Áhrif reglugerðarbreytingarinnar skýrir þannig alla lækkun EBITDA á tímabilinu og rúmlega það miðað við sama tímabil 2016. Áhrif breytingarinnar gæta mest á þriðja fjórðungi sem hefur verið lang stærsti reikifjórðungur vegna ferðalaga viðskiptavina og munu áhrifin vera hlutfallslega minni á öðrum fjórðungum auk þess sem mótvægisaðgerðir munu hafa áhrif til dæmis á næsta fjórðungi og á árinu 2018. Ágætis gangur var í sjónvarpstekjum félagsins á fjórðungnum með áframhaldandi vexti á milli ára og hefur vöxtur í sjónvarpstekjum verið viðvarandi á milli fjórðunga síðustu árin. Rekstrarkostnaður á þriðja fjórðungi stendur nánast í stað þrátt fyrir kjarasamningsbundnar hækkanir á launum og launatengdum gjöldum. Dregið hefur úr lækkun í launa- og starfsmannakostnaði samanborið við þriðja fjórðung 2016 þar sem ráðist var í hagræðingaaðgerðir á fyrri helmingi árs 2016, húsnæðiskostnaður er aftur á móti að skila nokkurri lækkun á milli tímabila.

Það var stór áfangi á fjórðungnum þegar sátt náðist við Samkeppniseftirlitið um kaup á fjölmiðla- og fjarskiptahluta 365 að undanskildu Fréttablaðinu og Glamour með skilyrðum. Í sáttinni felst að Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup Fjarskipta hf. á tilteknum eignum og rekstri 365 miðla hf. gegn skilyrðum, meðal annars að ráðast í aðgerðir til þess að tryggja samkeppni á fjarskipta- og fjölmiðlamarkaði og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Nú er mikil vinna í gangi við að leggja lokahönd á samrunann og fara í gegnum hefðbundna fyrirvara í kaupsamningi. Markmiðið er að afhending geti farið fram þann 1. desember 2017. Félagið stendur við fyrri áætlanir sem kynntar hafa verið í tengslum við samrunann um 1.750 m.kr. aukinn EBITDA-hagnað sem bætist við rekstur Vodafone á 12-18 mánuðum. Full áhrif samrunans taka því að gæta árið 2019 eða 2020, eftir því hversu hratt gengur að ná fullri samlegð. Við teljum raunhæft að sameinað félag verði með yfir 5 ma.kr. EBITDA hagnað þegar samlegð er að fullu komin fram.“